Styrktarsjóður geðheilbrigðis auglýsir eftir umsóknum í þriðja sinn en tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á.
Horft er sérstaklega til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir eru metnar:
a. Valdefling notenda
b. Valdefling aðstandenda
c. Mannréttindi og jafnrétti
d. Nýsköpun
Umsóknarfrestur er frá 1. júní til og með 4. september 2023. Fimm manna fagráð metur innsendar umsóknir og leggur tillögur að úthlutun styrkja fyrir sjóðsstjórn til ákvörðunar.
Árið 1998 eignaðist Geðhjálp fasteignina Túngötu 7 í Reykjavík. Húsnæðið var gjöf til félagsins frá ríkissjóði en ríkið eignaðist húsið við lát Önnu E.Ó. Johnsen, ekkju Gísla Johnsens konsúls. Það var vilji Gísla og Önnu að húsnæðið yrði notað fyrir heilbrigðistengda starfsemi. Geðhjálp starfaði í húsinu næstu 15 árin en viðhaldsþörf sligaði rekstur samtakanna og því var húsið selt árið 2013.
Með því var hægt að greiða skuldir samtakanna að kaupa annað ódýrara og hentugra húsnæði. Frá þeim tíma hefur Geðhjálp ávaxtað það sem eftir stóð af söluhagnaðinum með það fyrir augum að hann kæmi að notum í góðum verkefnum í geðheilbrigðismálum. Þessar ráðstafanir gera Geðhjálp kleift að leggja til 100 milljóna króna stofnframlag í Styrktarsjóð geðheilbrigðis.
Þriðjudaginn 18. október 2022 fór fram önnur úthlutun Styrktarsjóðs geðheilbrigðis í Sunnusal Iðnó. Alls bárust 30 umsóknir til Styrktarsjóðs geðheilbrigðis samtals að upphæð 79.5 m.kr. Margar þessara umsókna þóttu til fyrirmyndar en sjóðurinn hafði yfir að ráða 14 m.kr. til þessarar úthlutunar. Geðhjálp fjármagnaði úthlutun ársins 2021 og 2022 auk rekstrarkostnaðar sjóðsins eða samtals 26 m.kr. Samtals hefur Geðhjálp lagt sjóðnum til 206 m.kr. sl. ár.