Styrktarsjóður geðheilbrigðis

skipulagsskrá

 1. Styrktarsjóður geðheilbrigðis
  1. Geðhjálp hefur stofnað sjóð sem heitir Styrktarsjóður geðheilbrigðis. Heimili sjóðsins skal vera á skrifstofu Geðhjálpar og varnarþing sjóðsins er í Reykjavík.
 1. Stofnfé, tekjur og eignir
  1. Stofnfé sjóðsins er kr. 100.000.000,- sem Geðhjálp hefur lagt fram. 
  2. Heimilt er að auka stofnfé sjóðsins með framlögum. 
  3. Höfuðstóll sjóðsins telst vera stofnfé, sbr. 2. gr. Höfuðstólinn má aldrei skerða.
  4. Tekjur sjóðsins eru:
   1. Vextir og arður af eigum hans.
   2. Gjafir og áheit sem honum kunna að berast.
   3. Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni hans.
   4. Aðrar tekjur
 1. Tilgangur sjóðsins
  1. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta að mati fagráðs, sbr. 6. gr., bætt geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á.
 1. Skipan stjórnar
  1. Stjórn sjóðsins skipa þrír einstaklingar og tveir til vara. 
  2. Stjórn Geðhjálpar skipar fyrstu stjórn sjóðsins, en eftirleiðis mun fráfarandi stjórn kjósa nýja stjórn. Formaður sjóðsins skal ætíð vera formaður Geðhjálpar. 
  3. Enginn skal sitja í stjórn sjóðsins lengur en sex ár í senn.
  4. Stjórnin skiptir með sér verkum eftir þörfum. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar ber þó ætíð ábyrgð á fjárvörslu og bókhaldi sjóðsins.
 1. Hlutverk stjórnar og starfsemi
  1. Auk þess að bera ábyrgð á að starfsemi sjóðsins sé almennt í góðu horfi og í samræmi við lög og aðrar reglur þá hefur stjórn sjóðsins tvö mikilvæg meginhlutverk:
   1.  Að  varðveita og ávaxta eignir sjóðsins
   2.  Að úthluta styrkjum úr sjóðnum
  2. Stjórnafundir skulu haldnir a.m.k. tvisvar á ári og skal til þeirra boðað af formanni. Stjórn sjóðsins skal halda fundargerðabók um ákvarðanir sínar og um hvaðeina sem varðar rekstur sjóðsins.
 1. Fagráð
  1. Fagráð Styrktarsjóðsins skipa fimm aðilar. Skipað er í fagráðið af stjórn Geðhjálpar eftir tillögu sjóðsstjórnar til tveggja ára í senn í marsmánuði ár hvert. Hlutverk fagráðs er að setja upp sniðmát sem umsóknir um styrki skulu metnar út frá, meta allar umsóknir og veita þeim umsögn og leggja til við sjóðsstjórn verkefni sem lagt er til að hljóti styrk. Sniðmátið skal samþykkt af stjórn sjóðsins og endurmetið á tveggja ára fresti.
 1. Varðveisla og ávöxtun eigna
  1. Stjórn sjóðsins skal varðveita eignir hans og leitast við að ávaxta sjóðinn á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt, þannig að hann nái að þjóna tilgangi sínum sem best.
  2. Stjórn sjóðsins skal setja sjóðnum fjárfestingarstefnu þar sem markmiðum um ávöxtun skal lýst og mörk áhættu skilgreind. 
  3. Bókhald og fjárreiður sjóðsins skulu vera í höndum framkvæmdastjóra Geðhjálpar sem annast greiðslur úr sjóðnum samkvæmt ákvörðun stjórnar í samráði við formann stjórnar.
  4. Stjórn sjóðsins er heimilt að fela framkvæmdastjóra Geðhjálpar að semja við viðurkenndar fjármálastofnanir um ráðgjöf og eftir atvikum eignastýringu fyrir sjóðinn.
  5. Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund Geðhjálpar, til kynningar, fjárfestingastefnu sjóðsins.
 1. Úthlutun styrkja
  1. Að hámarki er heimilt að úthluta styrkjum sem samtals nema sömu fjárhæð og tekjur sjóðsins, sbr. gr. 2.3.
  2. Stjórn sjóðsins hefur heimild til, og skal leitast við, að veita styrki úr sjóðnum einu sinni á ári. Miðað skal við að úthlutun fari fram þann 9. október ár hvert, í fyrsta sinn árið 2021. Umsóknir um styrki skulu berast sjóðnum ekki seinna en 1. september ár hvert. 
  3. Úthlutun skal að jafnaði fara fram að fenginni umsögn fagráðs, sbr. 7. gr.
  4. Stjórn sjóðsins skal fela framkvæmdastjóra að annast kynningu á starfsemi sjóðsins, skilyrðum umsókna og umsóknarfresti.
  5. Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund Geðhjálpar úthlutunar- og starfsreglur sjóðsins til kynningar, þ.m.t. um hámarksfjárhæð styrkja og heildarfjárhæð styrkja til hvers umsækjenda.
 1. Reikningsár
  1. Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar skulu skoðaðir af löggiltum endurskoðanda Geðhjálpar.
 1. Staðfesting skipulagsskrár, breytingar og slit sjóðsins
  1. Leita skal staðfestingar sýslumanns á skipulagsskrá þessari.
  2. Skipulagsskrá þessari verður hvorki breytt, né Styrktarsjóður geðheilbrigðis lagður niður, nema með einróma samþykki sjóðstjórnar og að fengnu samþykki sýslumannsins í Reykjavík. 
  3. Verði sjóðnum slitið skal eigum hans ráðstafað af stjórn Geðhjálpar, í þágu bætts geðheilbrigðis á Íslandi.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1998.

Reykjavík 8. maí 2021

chevron-down