Styrktarsjóður geðheilbrigðis
18. október 2022

Styrktarsjóður geðheilbrigðis – 14 m.kr. úthlutað í dag

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á. Í ár var horft sérstaklega til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir voru metnar

a. Valdefling notenda
b. Valdefling aðstandenda
c. Mannréttindi og jafnrétti
d. Nýsköpun

Styrkhafar með Héðni Unnsteinssyni formanni stjórnar Styrktarsjóðs geðheilbrigðis

Úthlutanir 2022

Þriðjudaginn 18. október fór fram önnur úthlutun úr Styrktarsjóðs geðheilbrigðis. Alls bárust 30 umsóknir til sjóðsins í ár samtals að upphæð 79.5 m.kr. Margar þessara umsókna þóttu til fyrirmyndar en sjóðurinn hafði yfir að ráða 14 m.kr. til þessarar úthlutunar og því ljóst að ekki yrði hægt að styrkja mörg góð verkefni.

Fimm manna fagráð, skipað þeim Birni Hjálmarssyni, Hrannari Jónssyni, Huldu Dóra Styrmisdóttur, Svövu Arnardóttur og Helgu Sif Friðjónsdóttur, en hún var formaður fagráðsins, fór yfir umsóknirnar og lagði tillögur sínar í hendur stjórnar. Stjórn sjóðsins skipa þau: Héðinn Unnsteinsson, formaður, Guðrún Sigurjónsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason.

Stjórn samþykkti tillögur fagráðs og hlutu eftirfarandi verkefni styrk að þessu sinni:

Olga Khodos
Sálrænn stuðningur fyrir úkraínskt flóttafólk á Íslandi

Verkefninu er ætlað að veita sálrænan stuðning við úkraínskt flóttafólk á Íslandi. Þrátt fyrir að vera komnir í öruggt skjól á Íslandi er það undir miklu álagi og geðrænar áskoranir umtalsverðar. Fjölskyldumiðstöðin í Hátúni hefur lagt verkefninu til húsnæði. Þar gefst fólki kostur á að koma alla virka daga frá kl. 10-15 og fá stuðning á móðurmáli sínu.

Styrkupphæð: 2.000.000 kr.

Bændasamtök Íslands
Sálgæsla bænda: Fræðsla og forvarnir

Ætlunin er að vinna fræðslumyndband sem mun byggja á jafningafræðslu, þar sem bændur sem lent hafa í áföllum deila með öðrum sínum frásögnum og segja frá reynslu sinni. Gerð fræðsluefnisins verður unnin í samráði við notendur og Bændasamtök Íslands ætla sér að vera í samstarfi við stofnanir og önnur samtök á þessu sviði. Fræðslumyndbandið og efnið verður aðgengilegt öllum þeim sem eru hluti af Bændasamtökum Íslands.

Styrkupphæð: 1.500.000 kr.

Traustur kjarni
Jafningjastuðningur á Íslandi

Verkefnið sem gengur út á að starfrækja þjálfun í jafningjastuðningi á Íslandi. Jafningjastuðningur er ákveðin aðferð eða tækni til samskipta, stunduð víða um heim með góðum árangri. Aðferðin gengur meðal annars út á að einstaklingur sem hlotið hefur þjálfun nýtir bæði þjálfunina og sína eigin reynslu af geðrænum áskorunum til þess að vera til staðar fyrir þá sem leita eftir jafningjastuðningi. Traustur Kjarni mun skipuleggja og halda utan um starfið og þjálfun jafningja.

Styrkupphæð: 1.500.000 kr.

MetamorPhonics (Korda sinfónía)
MetamorPhonics hljómsveitin á Íslandi 2022-2023

MetamorPhonics eða Korda sinfónían eins og verkefnið er líka kalla er samfélagsmiðað fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, tónlistarkona stýrir. Fyrirtækið setur upp hljómsveitina í samstarfi við starfsendurhæfingarstöðvar, Listaháskóla Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hörpu og Tónlistarborgina Reykjavík. Hugmyndafræðin bak við hljómsveitina er að valdefla fólk í gegnum tónlist. Að þátttakendur hljómsveitarinnar upplifi sig sem meðlimi samfélagsins og á þau sé hlustað.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Okkar heimur
Stuðningshópur fyrir ungmenni sem eiga foreldra með geðrænan vanda

Okkar heimur er stuðningsúrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda og var sett á laggirnar vegna skorts á stuðningi og fræðslu fyrir börn í þessari stöðu hér á landi. Styrkurinn verður nýttur í að koma af stað stuðningshóp fyrir ungmenni sem eiga foreldra með geðrænan vanda. Mikil eftirspurn hefur verið eftir sérstökum stuðningi við þennan hóp en ungmennihafa kallað eftir rými þar sem þau geta mætt sjálf án foreldra og hitt ungmenni sem eru í svipaðaristöðu, spurt spurninga og viðrað áhyggjur. 

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Geðhvörf fyrir byrjendur
„Bípólar fyrir byrjendur – hvernig held ég jafnvæginu?” 

Þróun, þýðing og útgáfa bókar: „Bípólar fyrir byrjendur – hvernig held ég jafnvæginu?” Áherslur í bókinni tengjast nýjustu vitneskju um meðferðarúrræði í tengslum við geðhvörf og bata, gefa von og stuðla að persónulegum bata hjá lesendanum.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Gatklettur
Framleiðsla á stuttmynd

Tilgangur verkefnisins er að taka þátt í að upplýsa almenning um skilningsleysið, óttann og fordómana sem börn fólks með geðrænan vanda þurfa að kljást við í kringum veikindi foreldra sinna og hversu erfitt það getur verið fyrir þessi börn að fá skilning á aðstæðum og utanaðkomandi hjálp til að takast á við lífið þegar geðræn veikindi innan fjölskyldunnar svipta þau skyndilega öryggi og ást sem öll börn eiga rétt á á sínum uppvaxtarárum.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Psychedelics in Iceland
Ráðstefna í Hörpu – janúar 2023

Ráðstefna um notkun hugvíkkandi efna í meðferðarskyni verður haldin í Hörpu í janúar 2023. Fyrirlesarar úr fremstu röðum vísinda-og fagfólks um heim allan koma saman og ræða mikilvægi þess að opna á rannsóknir, faglega umræðu og notkun á hugvíkkandi efnum í meðferðarskyni.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Matthildur
Geðréttindaspjöld

Matthildur (samtök um skaðaminnkun) ætlar að vinna að gerð réttindaspjalda sem innihalda upplýsingar um lagaleg og félagsleg réttindi jaðarsettra einstaklinga sem glíma við vímuefnavanda og/eða heimilisleysi. Réttindaspjöldin munu innihalda aðgengilegar upplýsingar um lagalega réttarstöðu hópsins. Einnig verður unnið að spjöldum sem innihalda skaðaminnkandi leiðbeiningar sem draga úr líkum á ofskömmtun á vímuefnum, blóðbornum smitum og sýkingum.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

Tækifærið
Námskeið og starfsþjálfun fyrir ungt fólk

Tækifærið er starfsþjálfun fyrir ungt fólk sem er án formlegrar menntunar og hefur verið atvinnulaust í lengri tíma. Boðið er upp á 10-12 vikna námskeið og starfsþjálfun þar sem þátttakendur taka virkan þátt í mótun starfsins. Markmiðið með Tækifærinu er bætt líkamleg, andleg og félagsleg staða og endurkoma á vinnumarkað.

Styrkupphæð: 1.000.000 kr.

ADHD á kvennamáli
Valdeflandi sjálfshjálparhópur

Verkefnið er að fræða og styðja við þann hóp kvenna sem fá greiningu á fullorðinsaldri og hafa þörf fyrir að dýpka og auka skilning sinn á einkenninu í öruggu og fordómalausu umhverfi. Sjálfshjálpar hóparnir byggja m.a. á nálgun ADHD markþjálfunar, Valdeflingar (empowerment), jafningjafræðslu, Acceptance and Commitment Therapy (ACT), Hugrænni atferlismeðferð (HAM), og Núvitund, sem reynst hjálpleg til að auka meðvitund um hugsanir, tilfinningar og líkamsskynjun.

Styrkupphæð: 500.000 kr.

Haus
Hugarþjálfunarstöð

Þróun hugarþjálfunarstöðvar á netinu sem ber vinnuheitið Haus hugarþjálfunarstöð. Haus hugarþjálfunarstöð er „rækt“ þar sem íþróttafólk lærir að efla sína hugarfarslegu þætti með það að markmiði að yfirstíga hugarfarslegar áskoranir í sinni íþrótt, öðlast aukna vellíðan í íþróttaiðkun sinni og bæta frammistöðu sína. Uppistaðan í Haushugarþjálfunarstöð eru fræðslumyndbönd og hugarfarsleg æfingatæki sem unnin hafa verið af starfandi hugarþjálfara síðastliðin átta ár með hliðsjón af nýjustu rannsóknum í sálfræði og íþróttasálfræði.

Styrkupphæð: 500.000 kr.

Krónísk
Samfélagsmiðill

Auka umfang og sýnileika samfélagsmiðilsins krónísk_is á Instagram. Markmið miðilsins er að gera einstaklinga með króníska sjúkdóma sýnilegri og varpa ljósi á mikilvægi geðheilsu þeirra sem þjást af krónískum sjúkdómum.

Styrkupphæð: 300.000 kr.

Vinaskákfélagið
Skákmót og skákforrit

Styrkur til að halda skákmót og til að setja upp skákforrit á heimasíðu félagsins árið 2022. Mótin sem um ræðir eru: Meistaramót Vinaskákfélagsins í hraðskák, Alþjóðlega geðheilbrigðisskákmótið og Jólaskákmótið á Kleppi.

Styrkupphæð: 250.000 kr.

Heilsuefling
Heilsueflingarstund þar sem hugað verður að andlegri og líkamlegri heilsu

Heilsueflingarstund þar sem hugað verður að andlegri og líkamlegri heilsu. Kynntar verða nokkrar auðveldar æfingar sem oft eru nýttar í einstaklingsviðtölum þar sem unnið er að því að efla félagsfærni, hugarró og vellíðan. Stundin samanstendur af fræðslu, umræðum, verkefnum og verklegum æfingum.

Styrkupphæð: 200.000 kr.

Mig vantar orðin
Vinnustofur

Mig vantar orðin... er sería af áframhaldandi vinnustofum stýrðar af listakonunni Megan Auði, sem ætlar sér að nýta tungumálið, sem mótunarafl fyrir samfélagið og samfélagsviðhorf, fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Styrkupphæð: 150.000 kr.

Geðlíf – Líf eftir áföll
Fræðsla og stuðningur

Fræðsla og stuðningur fyrir fólk sem glímir við geðrænar áskoranir, afleiðingar ofbeldis og annarra áfalla. Þátttaka notenda í verkefninu, fólk sem hefur glímt við fíkn, verið í fangelsi og fólk sem hefur glímt við ýmiskonar geðrænar áskoranir miðla af reynslu sinni og bata. Hugmyndin kemur frá notendum og fagfólki með notendareynslu.

Styrkupphæð: 100.000 kr.

Tilurð Styrktarsjóðs geðheilbrigðis

Árið 1998 eignaðist Geðhjálp fasteignina Túngötu 7 í Reykjavík. Húsnæðið var gjöf til félagsins frá ríkissjóði en ríkið eignaðist húsið við Lát Önnu E.Ó. Johnsen, ekkju Gísla Johnsens konsúls. Það var vilji Gísla og Önnu að húsnæðið yrði notað fyrir heilbrigðistengda starfsemi. Geðhjálp starfaði í húsinu næstu 15 árin en viðhaldsþörf sligaði rekstur samtakanna og því var húsið selt árið 2013. Með því var hægt að greiða skuldir samtakanna og kaupa annað ódýrara og hentugra húsnæði. Frá þeim tíma hefur Geðhjálp ávaxtað það sem eftir stóð af söluhagnaðinum með það fyrir augum að hann kæmi að notum í góðum verkefnum í geðheilbrigðismálum. Nú hefur fasteign samtakanna í Borgartúni einnig verið seld með það fyrir augum að styrkja sjóðinn enn frekar.

Þessar ráðstafanir gerðu Geðhjálp kleift að leggja til 180 milljóna króna stofnframlag í Styrktarsjóð geðheilbrigðis. Jafnframt fjármagnaði Geðhjálp úthlutun ársins 2021 og úthlutun ársins í ár auk rekstrarkostnaðar sjóðsins eða samtals 26 m.kr. Samtals hefur Geðhjálp lagt sjóðnum til 206 m.kr. sl. ár.

Myndir: Eyþór Árnason

chevron-down