Svava Arnardóttir formaður, Héðinn Unnsteinsson, Guðrún Sigurjónsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason.
Helga Sif Friðjónsdóttir formaður, Björn Hjálmarsson, Hrannar Jónsson og Hulda Dóra Styrmisdóttir.
Á aðalfundi landssamtakanna Geðhjálpar þann 8. maí 2021 var skipulagsskrá „Styrktarsjóðs geðheilbrigðis“ samþykkt. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna og rannsókna sem geta bætt geðheilbrigði landsmanna og skilning á málaflokknum. Fjögurra manna stjórn á að stýra sjóðnum og fimm manna fagráð fjallar um umsóknir. Sjóðurinn er sjálfstæður og verður með öllu aðskilinn öðrum rekstri Geðhjálpar.
Landssamtökin Geðhjálp eru stofnaðili sjóðsins og leggja til 100 m.kr. stofnframlag. Óskað hefur verið eftir því að ríkið verði einnig stofnaðili með sama framlag og að atvinnulífið leggi einnig málstaðnum lið. Geðhjálp mun að auki leggja sjóðnum til ákveðið hlutfall af rekstrarafgangi samtakanna miðað við rekstrarumhverfi hverju sinni. Við hvetjum almenning og fyrirtæki sem nú þegar styðja við bakið á Geðhjálp að gera það áfram með fullvissu um að umframfjármagn renni ár hvert í sjóðinn.
Auglýst verður eftir umsóknum í júníbyrjun ár hvert og frestur til að sækja um greiðslu úr sjóðnum rennur út eigi síðar en 1. september. Úthlutanir fara fram 9. október - á stofndegi Geðhjálpar. Fyrsta úthlutun er fyrirhuguð í október 2021. Fimm manna fagráð, óháð landssamtökunum Geðhjálp, setur úthlutunarreglur sjóðsins hverju sinni samkvæmt skipulagsskrá. Fagráð ákveður út frá hvaða forsendum umsóknir eru metnar, það fer yfir allar umsóknir, veitir umsagnir um þær og gerir til sjóðsstjórnar um hvaða verkefni hún telur að ætti að styrkja. Þær forsendur sem unnið er út frá þurfa samþykki sjóðsstjórnar og skulu endurmetnar á tveggja ára fresti.
Árið 1998 eignaðist Geðhjálp fasteignina Túngötu 7 í Reykjavík. Húsnæðið var gjöf til félagsins frá ríkissjóði en ríkið eignaðist húsið við Lát Önnu E.Ó. Johnsen, ekkju Gísla Johnsens konsúls. Það var vilji Gísla og Önnu að húsnæðið yrði notað fyrir heilbrigðistengda starfsemi. Geðhjálp starfaði í húsinu næstu 15 árin en viðhaldsþörf sligaði rekstur samtakanna og því var húsið selt árið 2013. Með því var hægt að greiða skuldir samtakanna að kaupa annað ódýrara og hentungra húsnæði. Frá þeim tíma hefur Geðhjálp ávaxtað það sem eftir stóð af söluhagnaðnum með það fyrir augum að hann kæmi að notum í góðum verkefnum í geðheilbrigðismálum. Þessar ráðstafanir gera Geðhjálp kleift að leggja til 100 milljóna króna stofnframlag í Styrktarsjóð geðheilbrigðis.
Í kjölfar Covid faraldursins hefur geðheilbrigðismálum verið gefinn aukinn gaumur og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað ríki heims við að tíðni geðrænna úrlausnarefna geti aukist. Í kjölfar faraldursins. Því er mikilvægt að við bregðumst strax við og setjum aukinn þunga í málaflokkinn. Umfang geðheilbrigðismála fyrir Covid-faraldurinn var áætlað um 30% af heilbrigðiskerfinu - en ætluð fjármögnun nam aðeins um 12%.
Með Styrktarsjóði geðheilbrigðis vonast Geðhjálp til að hægt verði að stuðla að aukinni nýsköpun og framþróun innan geðheilbrigðismála og vitundarvakningu meðal almennings. Erindið hefur aldrei verið brýnna.